HLJÓÐVER Á HEIMSMÆLIKVARÐA

Stúdíó Sýrland státar af fjölbreyttu úrvali hljóðvera sem uppfylla mismunandi þarfir - allt eftir óskum og umfangi verkefna.  Alls eru hljóðverin 14 talsins og hvort sem viðskiptavinirnir þurfa hljóðver fyrir litlar upptökur, mixbíó til að hljóðblanda kvikmyndir eða stóran sal fyrir upptöku á sinfóníuhljómsveit (og allt þar á milli)  getur Stúdíó Sýrland uppfyllt flestar þarfir þeirra sem á upptöku þurfa að halda.  

Með vandað vopnabúr af hverskonar upptökutækjum sem á fáa sína líka ásamt einvala starfsfólki með samtals nokkur hundruð ára reynslu getur Stúdíó Sýrland leyst hverskonar verkefni - ekkert verkefni er of lítið og fá of stór

SÝRLAND VATNAGÖRÐUM

Í höfuðstöðvum Stúdíó Sýrlands í Vatnagörðum er nýjasta hljóðver Stúdíó Sýrlands en það er jafnframt  stærsta hljóðver á Íslandi.  Upptökusalurinn er um 200 fermetrar og hentar vel í hverskonar upptökur, stórar sem smáar, klassískar, jazz, eða popp/rokk.  Í salnum eru auk þess 2 sérstæðir upptökuklefar þar sem hægt er að nýta ef menn vilja aðskilja hljóðfæri við upptökur.  Í salnum eru 2 flyglar, Baldvin Concert Grand og Yamaha.  

Control herbergið er rúmgott, búið fyrsta flokks búnaði, 48 rása Cadac mixer, frábærum hátölurum og formögnurum ásamt hljóðnemasafni sem á sér fáar hliðstæður.  Nánari upplýsingar um tækin má finna í Tækjalistanum.

Meðal listamanna sem tekið hafa upp í salnum má nefna Of monsters and men sem tóku upp plötuna My head is an animal, Björk (Biophilia), HAM , Sinfóníuhljómsveit Íslands, Memphismafían, Ásgeir Trausti og fleiri.  

 
 

HLJÓÐRITI

Elsta hljóðver Íslands, Hljóðriti í Hafnarfirði, er óbeinn hluti af Sýrlandssamstæðunni og hefur tengst Stúdíó Sýrlandi um árabil með beinum og óbeinum hætti.  Það var stofnað árið 1975 og olli straumhvörfum í íslenskri tónlistarsögu því þá var í fyrsta sinn á Íslandi til alvöru hljóðver sem sérsmíðað var til upptöku á tónlist.  

Hljóðriti var um árabil vinsælasta hljóðver landsins, innréttað á sínum tíma í anda sjöunda áratugsins og hafa innréttingarnar fengið að halda sér óbreyttar til dagsins í dag.  Hljóðverið var starfrækt fram á tíunda áratug síðustu aldar þegar það fór í tímabundið hlé en opnaði aftur 2004 undir styrkri stjórn upptökustjórans Guðmundar Kristins Jónssonar (Kidda í Hjálmum) og hefur hann verið farsælasti upptökustjóri síðustu ára á Íslandi - Ásgeir Trausti, Memfismafían, Hjálmar og fleiri hafa verið tekin upp undir handleiðslu Kidda með öfundverðum árangri - bæði í efnistökum í sölutölum.

Í Hljóðrita eru 2 hljóðver, annarsvegar Studio A með stóru upptökrými og hinsvegar Studio B sem hugsað er fyrir eftirvinnslu.  Tækjabúnaður í Hljóðrita er einstakur, þar má finna flest það sem hugurinn girnist við upptökur og einnig er þar stórt safn hljóðfæra.

TALSETNINGAR / BÍÓMIX

Í höfuðstöðvum Stúdíó Sýrlands eru nokkur sérhönnuð talsetningahljóðver sem eru notuð við að talsetja fyrir sjónvarp og kvikmyndahús ásamt því sem þau eru notuð til ýmissa annara hljóðverkefna s.s. upptöku og eftirvinnslu hljóðbóka, tölvuleikja og sýninga til að nefna nokkur dæmi.

Einnig hefur Stúdíó Sýrland yfir að ráða fullkomnu bíómix hljóðkerfi frá JBL en þar eru talsettar kvikmyndir hljóðblandaðar ásamt þeim kvikmyndum sem Sýrland er að vinna hverju sinni.  Salurinn er einstaklega rúmgóður og býður upp á mikla möguleika við hverskonar hljóðvinnslu.

 
 

STÚDÍÓ SÝRLAND SKÚLATÚNI

Sögu Stúdíó Sýrlands má rekja til hljóðversins í Skúlatúni sem var innréttað árið 1989 af Agli Ólafssyni og hans félögum úr Stuðmönnum.  Það var byggt af miklum myndarskap, hvergi var til sparað við smíði og frágang hljóðversins á sínum tíma og varð Stúdíó Sýrland í Skúlatúni samofið miklum uppgangstíma í íslensku popp- og rokk tólistarlífi sem átti sér stað í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar

En allt hefur sinn vitjunartíma og í janúar 2014 var hljóðverið rifið og ákveðið var að flytja það á annan stað því húsnæðið var selt undir aðra starfsemi.  

Hljóðverið í Skúlatúni á þó stóran þátt í tónlistarsögu þjóðarinnar - þar voru tekin upp mörg meistaraverk og má þar nefna Ágætis byrjun, fyrstu plötu Sigurrósar, Kafbátamúsík í flutningi Emsími og þar tóku upp margar af frægustu hljómsveitum síðari ára á Íslandi; Stuðmenn, Björk, Sykurmolarnir, Blur, Morten Harket, Bubbi, Sálin hans Jóns míns, Ný Dönsk, Síðan skein sól, Todmobile, Björgvin Halldórsson og áfram mætti lengi telja.